Sea background
Copepods

Krabbaflær eru algengasti dýrahópurinn í svifinu. Þetta eru lítil krabbadýr, svipuð hrísgrjónum að útliti og stærri tegundirnar einnig svipuð hrísgrjónum að stærð. °

Rauðátan (Calanus finmarchius) er algengasta og mikilvægasta krabbaflóategundin. Hún skipar veigamikinn sess í lífkeðjunni sem aðalfæða loðnu og síldar. Lítið er um rauðátu á veturna, mestmegnis ókynþroska dýr sem liggja í nokkurs konar dvala í dýpri lögum sjávar. Þegar vorar leitar rauðátan til yfirborðslaga og verður þar kynþroska. Ungviðið klekst út um það bil mánuði síðar og heldur til í yfirborðslögunum. Þessi dýr verða kynþroska fyrir haustið og geta af sér aðra kynslóð. Sú kynslóð leggst í dvala yfir veturinn og hringrásin hefst aftur næsta vor. Vöxtur og kynþroski rauðátu er háður hitastigi og á köldum hafsvæðum er oftast um eina kynslóð að ræða á ári, ekki tvær eins og lýst er hér að ofan. Þó sjór í Eyjafirði verði nokkuð kaldur verður þar þó vart við tvær kynslóðir af rauðátu á ári.

Fjölmargar aðrar tegundir finnast í svifinu og getur verið erfitt fyrir óvanan að greina á milli þeirra. Almennt séð eru litlar tegundir algengar á grunnsævi innan fjarða og flóa en stærstu tegundirnar er að finna í kalda sjónum norðan við landið, til dæmis póláta (Calanus hyperboreus) og ísáta (C. glacialis). Alls hafa fjórtán tegundir krabbaflóa fundist í Eyjafirði. Algengustu tegundirnar eru hinar smávöxnu Temora longicornis, Oithona spinirostris og þorndís (Acartia longiremis). Einnig finnst nokkuð af rauðátu (Calanus finmarchius) sem er allnokkuð stærri. Rauðáta er mun algengari fjær landi, utan við fjörðinn.

Þó krabbaflær séu ráðandi dýrahópur í svifinu er þetta fjölbreyttur hópur og fjölmargar tegundir eru einnig botnlægar eða grafa sig niður í setið. Botnlægu krabbaflærnar eru mjög smávaxnar og þótt vitað sé að þær eru algengar hér, er svo til ekkert vitað um tegundasamsetningu eða lífshætti.

Margar krabbaflóategundir eru líka sníkjudýr. Lirfustigin líkjast öðrum krabbaflóm, en fullorðnu dýrin eru oft gjörólík krabbadýrum. Fiskilýs (Caligus spp.) sem geta plagað fiska í eldi eru t.d. krabbaflær. Þær eru ólíkar hefðbundnum krabbaflóm vegna þess að þær eru flatar og aðlagaðar því að halda sér föstum á roði fiska. Enn ólíkari eru illurnar eða tálknormarnir (Lernaeocera branchialis). Þær líkjast í raun alls ekki krabbadýrum heldur blóðrauðum ormum sem fastir eru við tálkn fiska og senda svo þræði inn í hjarta þeirra og sjúga úr þeim blóð.

Hreiðar Þór Valtýsson

copepod 1 20120102 1396169670 Acartia longiremis Acartia longiremis

copepod 2 20120102 1414565863 Temora longicornis Temora longicornis

copepod 3 20120102 2027572178 Ein stór Calanus tegund og litlar Acartia fyrir aftan Ein stór Calanus tegund og litlar Acartia fyrir aftan

copepod 4 20120102 1696081774 Fiskilús Fiskilús

 


The Fisheries Science Center | University of Akureyri | Borgum v./Norðurslóð | IS 600 Akureyri | Tel: +354 460 8900 | fax +354 460 8919 | E-mail: hreidar(hjá)unak.is

Design / Programing / Hosting - ArcticPortal